Kirkjuhús

Kirkjuhús 2009

Kirkjuhús hefur lengst gengið undir því heiti en var framan af kennt við eiganda sinn og nefnt Guðmundarhús. Það er nefnt Breiðablik um tíma í tíð Sigurðar Guðmundssonar um 1915.

Eigendur hússins hafa verið:

  • 1879 Guðmundur Guðmundsson
  • 1911 Sigurður Guðmundsson
  • 1937 Valdemar Þorvarðarson
  • 1972 Jóhann Gíslason (neðri hæð og hluti efri hæðar)
  • 1972 Sveinn Magnússon (íbúð á efri hæð)
  • 1974 Jón Eiríksson og Þórdís Þórðardóttir (íbúð á efri hæð)
  • 1980 Finnur Kristjánsson og Sigríður Hannesdóttir (íbúð á efri hæð)
  • 1982 Jóhann Gíslason eignast allt húsið
Ljósm.: Sigfús Eymundsson 1886 - Þjms

Ljósm.: Sigfús Eymundsson 1886 - Þjms.

Kirkjuhús er nú tvílyft bárujárnsklætt hús með lágu risi. Viðbygging með risi er við suðausturhorn hússins. Gluggaskipan var breytt skömmu fyrir 1988 og voru þá settir í húsið póstgluggar ýmist sex eða níurúðu. Tók sú skipan mið af notkun hússins en ekki af upprunalegu gluggaskipaninni frá 1897. Innanhússkipan hússins hefur tekið miklum breytingum til að þjóna mismunandi hlutverkum í áranna rás.

Húsið á sér tvö byggingarskeið. Upphaflega reisti Guðmundur Guðmundsson bóksali og bókari sér einlyft hús með risi og var inngangur í það frá suðurhlið. Lóðrétt klæðning, listaþil, var á veggjum og rennisúð á þaki og listar á húshornum sem málaðir voru í sama lit og listar við þak. Fjórir sexrúðu gluggar voru á suðurhliðinni og inngöngudyr á henni miðri með ytri hurðum og yfir þeim gluggi með bogadregnu tréskreyti. Jóhann Fr. Jónsson byggði húsið en hann var þá helsti smiður á Eyrarbakka. Hörður Ágústsson flokkar húsið til dansk-íslenskrar gerðar. Það var í hlutföllum og að gerð íslensk útfærsla á dönskum tilsniðnum húsum sem flutt voru til landsins, eins og til dæmis Húsinu.

Ljósm.: Guðmundur Sigurðsson - SE.

Eins og fram kemur var ýmis rekstur lengi í Kirkjuhúsi. Guðmundur Guðmundsson hafði lengi bókaverslun og mun hún fyrst hafa verið á heimili hans. Friðrik bróðir hans mun hafa annast afgreiðslu í búðinni. Eftir að húsið var stækkað var Sparisjóður Árnessýslu með afgreiðslu sína í rými í austurhluta hússins líklega frá 1897 og þar til hann varð gjaldþrota um 1925.

Sigurður Guðmundsson póstmeistari tók við bókabúðarrekstri af föður sínum og seldi pappírsvörur, ritföng og smávöru líkt og tíðkast í bókaverslunum. Hann seldi líka gler og annað það sem þurfti til gluggalagfæringa. Hann hafði líka á höndum póstafgreiðslu á Eyrarbakka og hafði aðstöðu til þess í herbergi inn af gangi í miðju húsinu.

Ljósm.: Gréta Mjöll Bjarnadóttir um 1980.

Ljósm.: Gréta Mjöll Bjarnadóttir um 1980.

Andrés Jónsson í Móhúsum á Stokkeyri var með verslunarrekstur (1913–1916) í vesturenda hússins þar til hann hafði byggt Búðarhamar undir verslun sína. Guðlaugur Pálsson, rak þar verslun í tvö ár (1917–1919) áður en hann keypti Sjónarhól og flutti starfsemi sína yfir götuna. Vera kann að Sigurður hafi sjálfur verslað í húsinu í stuttan tíma á milli Andrésar og Guðlaugs.

Þorkell Ólafsson verslaði síðastur í Kirkjuhúsi en hann var þar með verslun frá 1919 og allt fram til ársins 1947 og hafði alla neðri hæðina til afnota. Hann nýtti sparisjóðsrýmið sem pakkhús og eftir að Þorkell hætti verslunarrekstri leigði Guðlaugur Pálsson pakkhúsrýmið í nokkur ár þar á eftir og hafði þar geymslurými fyrir sinn verslunarrekstur.

 

© ILB/LÁ

Heimildir:
Héraðsskjalasafn Árnesinga. Einkaskjöl Guðmundar Guðmundssonar. Æviágrip hans sjálfs.
Þjóðskjalasafn Íslands. Skjalasafn endurskoðunarinnar 1888–1898. Árnessýsla. Húsaskattur.
Páll Sigurðsson samtal í júlí 2006.
Stefanía Magnúsdóttir samtal í júlí 2006.
 
 
Til baka í lista.