Garðhús 1

Garðhús 2010.

Nafn hússins hefur sveiflast á milli þess að vera Garðbær og Garðhús í manntölum og opinberum gögnum. Um tíma var það nefnt Jónasarhús eftir fyrsta eiganda sínum til aðgreiningar frá öðrum Garðbæjum eða Garðhúsum. Fyrir rúmum hundrað árum var það uppnefnt Skakkur vegna þess að húsið þótti standa skakkt við götuna. Þetta heiti kemur fram í vísu sem ort var um aldamótin 1900 um Guðna Jónsson sem hafði viðurnefnið halti, vegna þess að hann var með staurfót. Guðni flutti tölu af svölum samkomuhússins Fjölnis, beint á móti Garðhúsum. Vísan er svona:

Skakkur stóð á skakk við Skakk
og skakkur þuldi blaðrið.
Enga hafði af ýtum takk
öllum leiddist þvaðrið.

Ljósm.: Óþekktur.

Eigendur:

  • 1897 Jónas Einarsson
  • 1973 Þórunn Guðjónsdóttir
  • 1977 Hafþór Gestsson
  • 1979 Guðleif Gunnarsdóttir
  • 1983 Inga Lára Baldvinsdóttir og Magnús Karel Hannesson

Húsið er bárujárnsklætt timburhús með portbyggðu risi. Það stendur á háum kjallara og er viðbygging með skúrþaki við norður hlið en bíslag með forstofu að vestan verðu. Við virðingu til húsaskatts 1897 er húsinu lýst svo:

9 al á lengd. 7 al á breidd einloftað, járnklætt á 3 vegi með járnþaki. Innrjetting er stofa með breidd hússins lengd 4 1/3 al. Vesturenda er skift í 2 herbergi forstofu og kamers. 1 ferköntuð eldvjel smá er í húsinu með tilheyrandi ofnpípum í stað reykháfs. Við vesturgafl hússins er skúr 1 al 22 á lengd 2 ¼ al á breidd.

Eftir að byggt var ofan á húsið og frágangi þaks breytt ber það nokkur einkenni hins íslenska sveisers en gleggstu dæmi um þá húsagerð á Eyrarbakka eru Regin og Gunnarshús.

Ljósm.: Gréta Mjöll Bjarnadóttir um 1980.

Húsið var byggt 1895 og var þá ein hæð og ris með viðbyggingu að norðan. Vesturhliðin var í upphafi aðeins klædd með pappa og listum eins og sést á samtíma ljósmyndum. Þrír sex rúðu gluggar voru á framhlið. Um 1930 var sett port á húsið, ris hækkað og inngönguskúr á vesturhlið stækkaður og steyptur upp skorsteinn. Líklegt er að þá þegar hafi gluggum á framhlið verið fækkað í tvo og annar þeirra stækkaður. Norðurhlið var síðan forsköluð líklega á sjötta áratugnum. Breytingar hafa verið gerðar á ytra útliti hússins á síðasta aldarfjórðungi, aðallega þó á árunum 1983–88. Gluggaskipan var flutt til fyrra horfs og settir sex rúðu gluggar í húsið, eftir teikningum Hjörleifs Stefánssonar arkitekts. Skipt var um járn og grind lagfærð. Bíslag til vesturs var stækkað. Ýmsir smiðir unnu að þessum endurbótum. Aðkoma að kjallara á vesturhlið að norðan var dýpkuð og steyptar kjallaratröppur og grunnur endurbættur að austan- og norðanverðu. Jón Karl Ragnarsson smíðaði timburtröppur eftir forsögn Jon Nordsteien arkitekts.

Garðhús stendur í næsta nágrenni við Húsið og er því hluti mikilvægrar heildar sem ber að varðveita. Garðhús eru á lista Harðar Ágústssonar, sérfræðings í íslenskri byggingarsögu, yfir varðveisluverð hús sem bæri að friða.

 

© ILB/LÁ

Heimildir:
Þjóðskjalasafn Íslands. Skjalasafn endurskoðunarinnar 1908. Árnessýsla. Húsaskattur.
Hörður Ágústsson. Íslensk byggingararfleifð II. Reykjavík 2000.

Til baka í lista.