Garðhús 2

Garðhús 2 - Frímannshús 2010.

Stærð húss:

Flatarmál 99,2 m²; grunnflötur 56,8m²; rúmmál 138,7 m³. Lóð: 458,9 m²

Ljósm.: Óþekktur.

Eigendur:
1901 Ingibjörg Jónsdóttir
1924 Brynjólfur Árnason
1946 Magnús Kristjánsson
1950 Valgerður Sveinsdóttir
1954 Bergsteinn S. Sigurðsson
1955 Einar Theódórsson
1959 Ármann Þorgrímsson
1960 Guðlaugur Pálsson
1986 Inga Lára Baldvinsdóttir og Magnús Karel Hannesson

Húsið er bárujárnsklætt timburhús á tveimur hæðum með lágu risi. Því er lýst svo í gögnum til húsaskatts.

Íbúðarhús Ingibjargar Jónsdóttur á Garðhúsum er 12 alin langt 6 álnir breitt byggt af tré með flötu þaki járnklæddu. Undir húsinu er kjallari, hálfur innrjettaður með stórri eldavjel, uppi á loftinu eru 3 herbergi alinnrjettuð og forstofa og gangur. Öll herbergin ómáluð 2 eldamaskínur eru í herbergjunum. Allir veggir og gaflar eru pappaklæddir.

Í raun er lýsing Eiríks Gíslasonar frá 1916 skýrari því hann segir:

Grjótveggur að hálfu á 2 kanta gafl og hlið.

Ljósm.: Halldóra Ásgeirsdóttir

Segja má að Garðhús hafi verið byggð inn í hólinn því að neðri hæð að sunnan- og austanverðu var að ytra byrði grjót og steypt hleðsla. Húsið var byggt þétt upp við Garðhús I þannig að aðeins mjótt sundi var á milli. Vegna þess að húsið var byggt inn í hól var mikill hæðarmunur á jarðvegi við húsið að vestan- og austanverðu.

Líkur benda til að Kristinn Jónsson, sem síðar var jafnan nefndur Kristinn vagnasmiður, hafi byggt húsið, en hann bjó á þessum tíma á Eyrarbakka. Ýmis gögn og reikningar er varða byggingu þess eru með hans nafni. Samkvæmt ljósmynd frá 1911 hefur það framan af verið klætt pappa og listum. Húsið var með þremur sex rúðu gluggum og dyrum að vestanverðu og tveimur gluggum að austanverðu. Einn sexrúðu gluggi var í sundinu.

Húsið var í mjög slæmu ástandi þegar núverandi eigendur eignuðust það. Það var endurbyggt frá grunni á árunum 1990–93. Steyptur var nýr grunnur undir húsið og það flutt breidd sína til norðurs. Grind var endurnýjuð. Reynt var að nýta það efni sem nýtanlegt var úr húsinu svo sem gólfborð og panel. Samt er ljóst að þekkingu fagmanna hefur fleytt fram síðan húsið var endurbyggt og ljóst að öðruvísi hefði verið staðið að viðgerð þess í dag. Glugga smíðaði Jón Karl Ragnarsson eftir eina upprunalega glugganum sem eftir var í húsinu. Herbergjaskipan er óbreytt á efri hæð,með þremur herbergjum og palli, en

önnur á neðri hæð með baðherbergi og eldhúsi og borðstofu í einu rými. Húsið var hækkað lítillega til að ná fullri lofthæð á neðri hæð þess.

Haraldur Blöndal ljósmyndari bjó í húsinu um nokkurt skeið þegar hann starfaði og bjó á Eyrarbakka. Þar æfði hann kór og kvartett. Guðlaugur Pálsson kaupmaður notaði húsið fyrir geymslu um árabil. Hann rak þar sjoppu um skamma hríð á kvöldin þegar hann rak útibú frá Kaupfélaginu Höfn í verslun sinni.

Unnið að flutningi hússins á nýjan grunn.

    

© ILB/LÁ

Heimildir:
Þjóðskjalasafn Íslands. Skjalasafn endurskoðunarinnar 1901. Árnessýsla. Húsaskattur.
Eiríkur Gíslason. Virðingarbók fasteigna á Eyrarbakka.

 

Til baka í lista.