Helgafell

Helgafell 2010.

Eigendur:

  • 1905 Helgi Jónsson
  • 1908 Jóhann V. Daníelsson
  • 1929 Vilbergur Jóhannsson
  • 1939 Ragnheiður Ólafsdóttir
  • 1998 Ólafur Vilbergsson
  • 2005 Haraldur Ragnar og Ágúst Berg Ólafssynir

Ljósm.: Haraldur Blöndal um 1920, myndhluti.

Helgafell er bárujárnsklætt timburhús á hlöðnum steinkjallara með viðbyggingu að vestan og er á henni valmaþak. Norðurhlið var múrhúðuð um 1960 og hefur bárujárn verið klætt yfir múrhúðunina og steni-plötur klæddar á grunninn. Gluggar á norðurhliðinni eru því nokkuð sokknir inn í veggina. Á hæðinni eru þrjú herbergi og eldhús; í risi eru tvö herbergi en geymslur eru í kjallara. Skipt hefur verið um glugga og er skipan þeirra önnur en hún var í fyrstu þegar gluggarnir voru minni og þrír talsins á framhlið. Nýlega hefur verið sett ný útihurð í húsið sem ber forstofubygginguna ofurliði. Skorsteinn hefur verið fjarlægður eins og á mörgum gömlum húsum á Eyrarbakka. Enn má sjá glugga af frumgerð á vesturgafli hússins. Húsið er eitt þeirra sem verst fóru út úr hækkun götunnar á sínum tíma og nýtur sín því verr en skildi. Helgafell ber ákveðin einkenni sveiserhúsa í frágangi, svo sem útskurði á endum þakbita, þverbitum á göflum og breidd og sídd þakskeggs.

Húsið byggði Helgi Jónsson verslunarmaður en hann seldi það Jóhanni V. Daníelssyni kaupmanni mjög fljótlega. Jóhann nefndi húsið Haga en það heiti náði ekki að festast við það. Við virðingu til húsaskatts er húsinu lýst svo nýbyggðu:

Stærð 11 x 9 álnir 1 lift með reistu þaki byggt af timbri, pappa alklætt að utan. Herbergjaskipan niðri 2 stofur, 1 svefnherbergi og eldhús allt málað. Uppi á loftinu er skift í 2 herbergi. Allt málað. Kjallari er undir öllu húsinu. Allur steinlímdur. Úr honum gengur uppúr húsinu alla leið reikháfur hlaðinn af tígulsteini. Við vesturgafl hússins er forstofuhús sem er með tveimur inngangum. Allt málað. 9 gluggar eru á húsinu. 10 hurðir. 1 eldavjel og 1 ofn.

Ljósm.: Gréta Mjöll Bjarnadóttir um 1980.

Einhvern tíma eftir 1920 var viðbygging að vestanverðu rifin og önnur byggð í hennar stað og stendur hún enn. Hin eldri var með risþaki og tveimur mjóum gluggum að vestan. Helgafell er eitt þeirra húsa á Austurbakkanum sem ber að varðveita og er órjúfanlegur hluti gömlu húsheildarinnar þar.

 

© LÁ/ILB

Heimildir:
Þjóðskjalasafn Íslands. Skjalasafn endurskoðunarinnar 1905. Árnessýsla. Húsaskattur. 

Til baka í lista.