Sandvík eystri

Sandvík eystri 2010.

Eigendur:

  • 1905 Guðjón Guðmundsson
  • 1916 Elín Guðbjörg Guðmundsdóttir
  • 1921 Gunnar Hjörleifsson
  • 1928 Sparisjóður Árnessýslu
  • 1941 Guðbjörg Elín Þórðardóttir
  • 1984 Sigríður Eyþórsdóttir

Sandvík er bárujárnsklætt timburhús, ein hæð og portbyggt ris á hlöðnum steinkjallara. Viðbygging með skúrþaki er við norðurhlið þess og lítið bíslag er á vesturgafli. Húsinu er svo lýst í virðingargjörð til húsaskatts:

Íbúðarhús Guðjóns Guðmundssonar á Sandvík. Stærð 8 x 6 álnir byggt af timbri. [Klætt] pappa og þakið klætt járni. Herbergja skipan er baðstofa, gangur til dira og lítið geymsluloft þar yfir. Við austurenda hússins er skúr 6 x 3 álnir með járnþaki. Veggir að mestu leiti af grjóti. Kjallari er undir húsinu. Gangur er frá húsinu til Eldhús. Á öllu húsinu eru 4 gluggar og 5 hurðir.

Ljósm.: Óþekktur, myndhluti

Samkvæmt þessu má ætla að eldhús hafi verið í sérstöku útihúsi. Í úttekt Eiríks Gíslasonar smiðs á húsinu til brunavirðinga 1917 kemur fram að viðbygging við húsið að norðanverðu hefur verið með grjótvegg til norðurs og í sérstakri viðbyggingu útúr henni er eldhús, en þá er einnig búið að koma fyrir eldhúsi í húsinu sjálfu. Skúrinn að norðanverðu hefur því verið endurbyggður að hluta eða í heild. Inngöngubíslag að vestanverðu hefur verið byggt við húsið skömmu eftir 1920.

Gagnger viðgerð var gerð á húsinu á árunum 1992-1997. Klæðning var endurnýjuð og gluggar færðir til fyrra horfs. Magnús Skúlason arkitekt var ráðgefandi við viðgerð hússins. Jón Karl Ragnarsson smíðaði glugga og annaðist viðgerðina. Má segja að innri gerð hússins hafi verið lítið breytt frá fyrstu gerð. Á hæð eru tvö herbergi, eldhús og salerni en í risi tvö herbergi. Eldhúsi og salerni hefur verið komið fyrir. Húsið byggði Guðjón Guðmundsson árið 1905 en hann fluttist síðar til Vestmannaeyja.

Ljósm.: Halldóra Ásgeirsdóttir 1984.

Viðgerð hússins var styrkt af Húsafriðunarsjóði 1992, 1993, 1995, 1996 og 1997.

 

© LÁ/ILB

Heimildir:
Hörður Ágústsson. Íslensk byggingararfleifð II. Reykjavík 2000.
Þjóðskjalasafn Íslands. Skjalasafn endurskoðunarinnar 1905. Árnessýsla. Húsaskattur. 

Til baka í lista.