Reginn – Háeyri

Reginn - Háeyri 2011.

Húsið var upphaflega nefnt Reginn en þegar Guðmundur Ísleifsson flutti þangað frá Háeyri, sem stóð næst fyrir austan Reginn, færði hann húsheitið með sér.

Eigendur:

 • 1907 Smíðafélagið Reginn
 • 1912 Þorleifur Guðmundsson
 • 1912 Kaupfélagið Ingólfur
 • 1917 Guðmundur Ísleifsson
 • 1934 Ásmundur Eiríksson
 • 1985 Jóna og Helga Ásmundsdætur
 • 1987 Kjartan Runólfsson og Margrét Kristinsdóttir
 • 1993 Ástvaldur Bjarki Þráinsson og Heiðrún Fríða Grétarsdóttir
 • 1997 Björn J. Guðjohnsen
 • 2000 Kristín Cardew Guðmundsdóttir
 • 2004 Árni Víðir Hjartarson og Guðrún Helga Elvarsdóttir
 • 2006 ??

Ljósm.: Kjartan Guðmundsson um 1910. SE.

Reginn er stórt, myndarlegt, timburhús byggt í anda byggingarstíls sem kom hingað frá Noregi og nefndur hefur verið sveiserstíll. Það stendur á allháum steinsteyptum kjallara, ein hæð og portbyggt ris með miðjukvisti að sunnan og norðan. Skúrviðbygging er norðan við húsið og er hún jafngömul húsinu sjálfu. Inngöngubíslag er á húsinu að sunnanverðu. Tvær hliðar hússins, suður- og austurhlið, eru bárujárnsklæddar en vestur- og norðurhliðar og viðbyggingar eru forskalaðar. Nýlegir gluggar með gömlu lagi eru í húsinu, ekki eru nein gerefti eða vatnsbretti kringum þá. Á hæðinni er eitt opið rými og eldhús. Í risi eru fimm herbergi.

Húsið er byggt árið 1907 sem smíðahús. Það stendur á steinsteyptum kjallara og mun hann vera sá fyrsti sinnar tegundar á Suðurlandi. Frá því segir í blaðinu Suðurlandi, sem út var gefið á Eyrarbakka:

Það þóttu undur mikil og afar heimskulegt, þegar hér austanfjalls var fyrst steyptur kjallari undir hús, en það var þegar smíðahúsið Reginn var byggt. Því var þá spáð, að það yrði aldrei að liði, efnið væri svo vont, og þeir sem að því ynnu væru ólærðir. En þetta fór öðruvísi. Steypan reyndist ágætlega, og varð ódýrari en þó byggt hefði verið úr timbri og járni sama hæð. Þetta hús var líka fyrsta húsið, sem vatnsleiðslu var komið fyrir í, en það hafa margir gert síðan, og mun enginn vilja missa þann útbúnað, sem áður hefur fengið hann.

Vatnsleiðslan sem hér segir frá var tengd við brunn undir kjallara hússins.

Húsið hefur tekið nokkrum breytingum frá því það var byggt. Upphaflega voru tveir gluggar á kvistinum þar sem nú er einn. Útskorið skreyti var yfir öllum gluggum í risinu og svokallað band eða útskorinn skrautlisti var eftir miðju hússins á hæðarmótum. Trébitar voru þvert á milli þakskyggna til skrauts. Allt hefur þetta verið fjarlægt.

Ljósm.: Óþekktur.

Bíslag hefur verið byggt við inngöngudyr að sunnanverðu og það síðan stækkað og lögun þess breyst í gegnum tíðina. Inngöngudyrum í skúr á norð-austurhorni hefur verið lokað en þær voru á húsinu frá upphafi. Húsið hefur verið forskalað á sjötta áratug 20. aldar. Ástvaldur Bjarki Þráinsson endurnýjaði járn á austurhlið hússins og smíðaði nýja glugga með gömlu lagi, en segja má að þeirri viðgerð hafi ekki verið lokið. Magnús Skúlason hjá Húsafriðunarnefnd var ráðgefandi við endurbæturnar. Tristan Cardew smíðaði glugga í aðrar hliðar hússins og gerði ýmsar lagfæringar innan húss.

Nýbyggt hefur Reginn verið eitt alglæsilegasta hús Eyrarbakka. Það verðskuldar að endurheimta fyrri reisn. Reginn er á lista Harðar Ágústssonar, sérfræðings í íslenskri byggingarsögu, yfir varðveisluverð hús sem bæri að friða. Styrkir til viðgerðar hússins voru veittir úr Húsafriðunarsjóði 1994, 1995, 1996 og 2001.

Í kjallara Regins var járnsmíðaverkstæði Helga Magnússonar en tengdafaðir hans, Oddur Oddsson, var með gullsmíðaverkstæði sitt á hæðinni þar sem einnig var íbúð. Í húsinu var fyrsta landsímastöð á Eyrarbakka, eftir að sími var lagður þangað 1909. Oddur var skráður símstjóri, en kona hans Helga Magnúsdóttir mun þó fyrst og fremst hafa annast

þann starfa. Um hana orti Björn Bjarnason í Grafarholti vísuna:

Undra tól er talsíminn
töframætti sleginn.
Heyrir gegnum helli sinn
hún Helga mín í Reginn.

Ljósm.: Gréta Mjöll Bjarnadóttir um 1980.

Eftir 1960 voru um tíma í kjallara Regins ljósaböð á vegum Kvenfélagsins á Eyrarbakka. Kristín Cardew fatahönnuður hafði þar saumastofu fyrir sérhannaðan prjónafatnað á meðan hún bjó í húsinu.

 

 

© LÁ/ILB

Heimildir:
Þjóðskjalasafn Íslands. Skjalasafn endurskoðunarinnar 1907. Árnessýsla. Húsaskattur.
Hörður Ágústsson. Íslensk byggingararfleifð II. Reykjavík 2000.
Suðurland 5. tbl. 1910.

Til baka í lista.