Gunnarshús

Gunnarshús 2010.

Húsið hefur borið ýmis heiti í gegnum tíðina: Gunnarshús – Gistihúsið – Gamli barnaskólinn – Lefolii – Rauða húsið – Búðarstígur 12.

Eigendur:

  • 1915 Gunnar Jónsson
  • 1985 Jóhann Jóhannsson
  • 1987 Bergljót Kjartansdóttir

Ljósm.:

Gunnarshús er bárujárnslætt timburhús á háum steyptum kjallara. Risið er portbyggt og er á því kvistur að sunnan og norðan. Forstofuviðbyggingingar og tröppur eru bæði vestan og norðan á húsinu. Í því eru tvær íbúðir. Á lofti eru fjögur herbergi og eldhús á palli. Á hæðinni eru tvö herbergi og stórt eldhús, en herbergjaskipan var nokkuð breytt til að þjóna nýju hlutverki sem veitingastaður fyrir nokkrum árum. Í kjallara er eitt stórt rými og tvö klósett. Geymsluloft er yfir risinu. Húsið er því stórt og myndarlegt og eitt af glæsilegri timburhúsum á Eyrarbakka. Jafnframt er innri gerð þess og viðir að stórum hluta upprunalegir. Það ber ýmis einkenni svokallaðs sveiserstíls en hann varð algengur hér á landi í kjölfar þess að tilsniðin hús voru flutt inn frá Noregi.

Húsið í þeirri mynd, sem það hefur nú, var reist árið 1915. Það gerði Gunnar Jónsson, sá sem það er kennt við, ásamt sonum sínum. Því er svo lýst fullbyggðu árið 1915:

Íbúðarhús Gunnars Jónssonar heitir Gunnarshús, og stendur á Einarshafnarverslunarlóð, stærð 16 x 10½ alin einlyft með reistu þaki og kvisti í gegn, byggt af timbri pappa lagt og allt járnvarið, kjallari úr steinsteipu 4 ar alnir á hæð, að mestu leiti ofan jarðar, notaður fyrir smíða hús og geimslu. Húsið allt notað til íbúðar, ofan á grunni í því eru 2 ofnar og 3 eldavélar, á því eru 16 glugga fög og 15 hurðir á járnum. Við norðurhlið og vesturgafl eru skúrar notaðir til inngangs í húsið, uppúr mæni hússins er skortsteinn úr tígulsteini.

Ljósm.: Sigfús Eymundsson - Þjms, myndhluti

Húsið var byggt upp úr gamla barnaskólahúsinu, sem reist var árið 1880 og stóð ofar í lóðinni. Einn heimildarmanna, Guðmundur Einarsson þá barn að aldri, mundi eftir því þegar barnaskólahúsinu var rennt á sliskjum upp á steyptan kjallarann. Þá var sett á það port og hærra ris. Í áðurnefndu barnaskólahúsi var skólinn til húsa til 1913, þegar hann var fluttur í nýtt hús sunnan við Steinskot.

Í Gunnarshúsi bjó fjölskylda Gunnars Jónssonar og höfðu hann og synir hans trésmíðaverkstæði í kjallaranum. Einnig var rekin greiðasala og gisting í húsinu enda var það oft nefnt Gistihúsið. Þar munu og hafa verið framkvæmdar ýmsar læknisaðgerðir og var aðstaða leigð út til þess. Einnig lágu sjúklingar oft í húsinu eftir aðgerðir og í veikindum sínum. Bergljót Kjartansdóttir stóð fyrir viðgerðum á húsinu eftir að það komst í hennar eigu og voru þá endurnýjaðir gluggar og klæðning. Stefán S. Stefánsson mun hafa smíðað gluggana.

Bergljót rak ásamt Jóhönnu Leopoldsdóttur veitingastað í kjallara hússins á árunum 1991 og ein sumarið 1992. Árið 1993 var gerð tilraun til að setja þar á fót menningarmiðstöð og voru þá haldnar þar nokkrar sýningar auk ýmissa annarra viðburða. Þórir Erlingsson tók húsið á leigu og hóf rekstur á veitingastaðnum Kaffi Lefolii árið 1994 og rak til 1999.

Ljósm.: Gréta Mjöll Bjarnadóttir um 1980.

Eftir það hóf Ingi Þór Jónsson rekstur á veitingastaðnum Rauða húsinu árið 2000 og rak til 2005 (undir lokin í félagi við Pétur Andrésson) þegar rekstur þess veitingastaðar var fluttur í Miklagarð.

Húsið er flokkað undir íslenskan sveiser. Gunnarshús er á lista Harðar Ágústssonar, sérfræðings í íslenskri byggingarsögu, yfir varðveisluverð hús sem bæri að friða. Viðgerð hússins var styrkt af Húsafriðunarsjóði 1988 og 1989.

 

© LÁ/ILB

Heimildir:
Hörður Ágústsson. Íslensk byggingararfleifð II. Reykjavík 2000.
Þjóðskjalasafn Íslands. Skjalasafn endurskoðunarinnar 1915. Árnessýsla. Húsaskattur. 

Til baka í lista.